Umhverfis- og loftlagsstefna Pírata

Hvalasporður stingur upp út á sjó með fjöll í bakgrunni

Við erum grænn flokkur

Píratar hafa lengi státað sig af gríðarlega metnaðarfullri umhverfis- og loftslagsstefnu, því fyrir utan mikilvægi þess að afstýra loftslagsvánni vitum við að tækifærin í loftslagsvænum lausnum eru óteljandi og munu varða leiðina í atvinnu- og verðmætasköpun næstu áratugina. Hvort sem um ræðir nýsköpun, samgöngur, byggða- og efnahagsmál, landbúnað eða menntamál – í öllum kosningastefnum Pírata eru grænar aðgerðir í fyrirrúmi.

Umhverfis- og loftslagsstefna Pírata var metin sú besta í Sólinni fyrir kosningar 2021 og í tengslum við undirbúning kosningastefnu haustið 2024 voru gerðar lítilsháttar breytingar á stefnunni til að endurspegla þá þróun sem hefur orðið á undanförnum árum. Upphaflega stefnu og uppfærsluna er hægt að skoða hvora í sínu lagi í kosningakerfi Pírata, en hér er hægt að lesa þær saman á einum stað.

1. Skýr stefna í átt að kolefnishlutleysi

Loftslagsváin er án efa ein stærsta áskorun mannkyns og kallar á miklar kerfisbreytingar. Ísland hefur alla burði til þess að vera í forystusveit ríkja sem berjast af alvöru gegn þessum breytingum með réttlátum og framsæknum aðgerðum. Lausnin er sjálfbært samfélag. Áskorunin framundan er tækifæri til að gera betur, bæði í stjórnmálum nútímans og fyrir komandi kynslóðir. Bregðumst við yfirstandandi neyðarástandi í loftslagsmálum með róttækum aðgerðum.

Mikilvægt er að stjórnvöld setji sér metnaðarfull markmið til að halda hlýnun loftslags innan 1,5°C. Þau markmið þurfa að vera sanngjörn og endurspegla stöðu Íslands sem ríks lands þar sem losun er mikil miðað við höfðatölu. Markmið um árangur þarf að uppfæra reglulega á grundvelli nýjustu upplýsinga og tækniframfara.

Mótmælandi heldur á skilti "There is no planet B"

2. Valdeflum almenning

Stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð sem fylgir valdasetu á tímum loftslagsbreytinga. Almenningur á að hafa skýra möguleika til að hafa aðhald og eftirlit með stjórnvöldum. Tryggjum aukið samráð við almenning á öllum stigum stefnumótunar. Verndum hagsmuni komandi kynslóða með því að meta allar aðgerðir og útgjöld ríkisins út frá velsældarmælikvörðum og áhrifum þeirra á umhverfi og loftslag. Vinnum saman og finnum lausnirnar sameiginlega á þjóðfundi um sjálfbærni og loftslagsmál sem haldinn verði í upphafi hvers kjörtímabils.

3. Græn umbreyting í allra hag

Græn umbreyting samfélagsins er almenningi til góðs og mikilvægt hagsmunamál komandi kynslóða. Meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda liggur hjá stjórnvöldum og fyrirtækjum en einstaklingar eiga að búa við aukið valfrelsi og fá skýrari og betri upplýsingar sem auðvelda þeim að velja umhverfisvæna kosti. Umhverfisvæni valkosturinn á að vera aðgengilegur öllum óháð efnahag. Við þurfum í sameiningu að búa okkur undir þær áskoranir sem fylgja loftslagsbreytingum, auka tækifæri með menntun og þjálfun starfsfólks í nýjum greinum og tryggja réttlát umskipti fyrir öll.

4. Stjórnsýsla og stjórnvöld

Vangeta valdhafa til að bregðast með fullnægjandi hætti við loftslagsvánni einkennist nú árið 2021 af vanmáttugri stjórnsýslu þar sem veigamiklar ákvarðanir um baráttuna gegn loftslagsbreytingum eru teknar af öðrum en þeim sem bera ábyrgð á henni. Endurskipuleggjum alla stjórnsýsluna og hefjum samstarf við aðila vinnumarkaðarins um réttlátar og áhrifaríkar aðgerðir. Setjum metnaðarfulla, tímasetta og fullfjármagnaða aðgerðaráætlun sem verður endurskoðuð reglulega og setjum velsældarmælikvarða í forgrunn við áætlanagerð.

5. Græn umbreyting atvinnulífsins

Á næstu árum verður að eiga sér stað bylting í grænni nýsköpun og framþróun. Með því að styrkja græna sprota og veita fjármunum til rannsókna í umhverfismálum tryggjum við ekki bara lífvænlega jörð fyrir komandi kynslóðir heldur er það skynsamlegasta fjárfestingin á komandi áratugum. Við þurfum að beita öflugum mótvægisaðgerðum sem ná til allra geira atvinnulífsins, búa til efnahagslega hvata fyrir grænvæðingu atvinnulífsins, skapa hvata fyrir val á vörum sem menga minna og setja fjármálakerfinu nýjar leikreglur sem koma í veg fyrir stuðning við mengandi fyrirtæki og stóriðju. Mótum nýja langtímastefnu fyrir vistvæna og kolefnishlutlausa matvælaframleiðslu.

6. Náttúruvernd

Óspillt náttúra þarf sterkan málsvara við stjórnvölinn. Við viljum vernd miðhálendisins í lýðræðislegt ferli svo hægt sé að tryggja vernd hálendisins í þágu komandi kynslóða. Stöndum vörð um almannaréttinn og frjálsa för fólks, svo lengi sem viðkvæm vistkerfi eru varin. Rammaáætlun verður áfram matstæki fyrir heildarhagsmuni við raforkuframleiðslu en verður að þróast í samræmi við aukna áherslu á náttúruvernd. Notum orkuna í auknum mæli í græna nýsköpun og leggjum af mengandi stóriðju í skrefum. Setjum náttúruvernd undir landsskipulag og verndum náttúruna á vinsælum áfangastöðum fyrir átroðningi. Verndum og endurheimtum landvistkerfi, eflum skógrækt og landgræðslu á landbúnaðarlandi og á örfoka landi og endurskoðum lög um villt dýr til að tryggja vernd þeirra, þ.m.t. sjávarspendýr.

7. Hringrásarsamfélag

Að byggja upp hringrásarsamfélag er leiðin til að snúa frá ósjálfbæru hagkerfi sem er grundvallað á óendanlegum vexti. Við viljum setja skýra stefnu um hringrásarhagkerfi til að draga úr vistspori og sporna gegn ofneyslu og sóun. Látum mengandi starfsemi greiða sérstök gjöld og axla ábyrgð á myndun úrgangs. Innleiðum réttinn til viðgerða og stuðlum að vistvænu deilihagkerfi. Hefjum átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og endurhugsum hið brotakennda kerfi úrgangsmála. Byggjum upp græna innviði um land allt fyrir vistvæna fararmáta og hefjum tilraunir með samgöngur framtíðarinnar, t.d. með uppbyggingu lestarsamgangna.

Nærmynd af gömlum landakortshnetti

8. Aðgerðir á alþjóðasviðinu

Víðtæk alþjóðleg samvinna er nauðsynleg ef að nást á að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5° C marka Parísarsamningsins. Margt bendir til þess að mörg þeirra ríkja sem eiga aðild að Parísarsamningnum muni ekki geta staðist við skuldbindingar sínar án þess að stórauka aðgerðir. Ísland á að nota rödd sína á alþjóðavettvangi til að beita sér í þágu umhverfis- og loftslagsmála til að sporna gegn óafturkræfum skaða á vistkerfum heimsins. Stuðlum að auknu alþjóðlegu samstarfi til að ná kolefnishlutleysi og leggjum áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum Íslands. Höfum framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Styðjum þróunarríki í aðgerðum sínum og öxlum þá ábyrgð sem fylgir stöðu okkar sem einu af auðugari ríkjum heims.


8.1. Ísland á að vera hávær rödd í þágu náttúruverndar og loftslagsmála á alþjóðavísu. Besta leiðin til að vera trúverðug í slíkum utanríkispólitískum aktívisma er að hafa náð raunverulegum árangri heima fyrir.

8.2. Ísland bjóðist til að hýsa fund aðildarríkja loftslagssamningsins þegar 10 ár verða liðin frá undirritun Parísarsáttmálans, þar sem við leiðum opið samtal um það hvernig hægt sé að takast af alvöru á við loftslagsvandann.

8.3. Stuðlum að auknu alþjóðlegu samstarfi og samtali um tæknileg málefni, sérfræðiaðstoð, vörur, þjónustu og fjármagn sem gæti nýst öðrum þjóðum við kolefnisbindingu og að ná kolefnishlutleysi.

8.4. Leggjum áherslu á ákvæði um loftslagsmál og líffræðilegan fjölbreytileika í öllum milliríkjasamningum sem Ísland á aðild að.

8.5. Höfum framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Þar á meðal verði viðmið um að ná að nýju og viðhalda því stigi koltvísýrings í andrúmsloftinu sem þörf er á til að afstýra hamfarahlýnun.

8.6. Styðjum við loftslagsvæn þróunarverkefni í ríkjum sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.

8.7. Aukum framlög til aðgerða gegn loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra í þróunarríkjunum, m.a. í gegnum Græna loftslagssjóðinn (Green Climate Fund) og aðlögunarsjóð á vegum loftlagssamnings S.þ. (Adaption Fund).

8.8. Öxlum ábyrgð sem eitt af auðugari ríkjum heims, styðjum við fólk á flótta og tökum á móti meiri fjölda loftslagsflóttafólks.

8.9. Tölum fyrir alþjóðlegu samstarfi um umhverfis- og náttúruvernd, sér í lagi á norðurslóðum. Virkjum samstöðu Norðurlandanna til að stefna sameiginlega að metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum og setjum þannig þrýsting á Evrópusambandið að ganga enn lengra í þágu loftslagsmála.

8.10. Stöndum með umhverfis- og náttúruvernd og beitum varúðarreglunni á alþjóðasviðinu með því t.d. að styðja bann við námavinnslu á hafsbotni, beita okkur fyrir alþjóðlegu banni gegn olíuleit og olíuvinnslu og að norðurskautssvæðið njóti sérstakrar friðlýsingar.

8.11. Beitum okkur fyrir því að vistmorð verði viðurkennt sem brot á alþjóðalögum.